Thursday, 30 November 2017

Ádeila á grein í Bændablaðinu (aðsend grein)

Aðsend grein eftir Tryggva Unnsteinsson:

Við lestur á Bændablaðinu (gefið út fimmtudaginn 16. nóvember 2017) rak ég augun í greinina „Húsasótt og jarðtengingar“ og vakti hún athygli mína þar sem mér fannst þessi tiltekna grein ekki standast vísindalega gagnrýni á neinn hátt. Ég ákvað því að fara á stúfana og skoða hvort þær fullyrðingar sem koma fram í þessari grein hafi við einhver rök að styðjast.

Til að byrja með ákvað ég að skoða hver höfundur greinarinnar er, Valdemar Gísli Valdemarsson. Eftir stutta eftirgrennslan kom í að hann heldur úti vefsíðunni Lífómum þar sem er rekinn áróður um svokallaðar „raflækningar“ (einnig þekkt sem „lífsveiflutækni“ eða „tíðnilækningar“) sem eiga að geta læknað skv. vefsíðunni: Gigt, vefjagigt og liðagigt, depurð, óþoli hverskonar, mígreni, meltingaróreglu og síþreytu. Án þess að fara of djúpt yfir þetta þá er dagsljóst að um er að ræða falslækningar sem hafa ekki við nein vísindi að styðjast og er fyrirvarinn á síðunni eftirfarandi:
„Það skal tekið fram að almenn læknavísindi hafa hingað til ekki samþykkt né viðurkennt lífsveiflutæknina. Það er líka nauðsynlegt að benda á það að notkun lífsveiflutækni getur ekki komið í stað viðtals við læknir, græðara eða aðra þá sem vinna við og hafa viðurkennda menntun á sviði lækninga, hefðbundinna eða óhefðbundinna.“ 

Sem hljómar ekkert sérlega traustvekjandi svona til að byrja með.
En aftur að greininni sjálfri. Til að byrja með telur höfundur upp jákvæð áhrif jarðtenginga húsa á líf fólks og dýra. Þar sem ekki er vísað á heimildir get ég hvorki hneigt né beygt þessi rök og verðum við því að leifa þeim að njóta vafans í bili.

Byggingamáti 

Hér rekur höfundur það hvernig jarðtenging húsa hefur versnað á síðari árum sökum þess að málmhitaveitarörum hefur verið skipt út fyrir rör úr plasti sem leiði ekki rafmagn frá húsum.

Náttúrulegir rafkraftar 

Í þessum hluta sýnir höfundur okkur hversu illa lesinn hann er í eðlisfræði, tökum dæmi: Höfundur nefnir að „rafkraftur milli jónahvolfs og jarðar sé að styrk 100 V/m í 1 metra hæð yfir jörðu“, þó að stærðin sé rétt þá er nafnið á henni það ekki því þarna er um að ræða „rafsvið“ sem er ekki það sama og „rafkraftur“. Sama er uppi á teningnum á skýringarmynd sem með fylgir, þar segir orðrétt: „Rafsvið frá jónahvolfi veldur nálægt 100 V/m geislun við jörðu.“ sem er einfaldlega ómarktæk setning því þarna er hann í raun að segja að ákveðið rafsvið myndi jafn sterkt og samátta rafsvið. Það hljómar í það minnsta ekkert sérlega líklegt þegar maður setur þetta fram svona.

Annað sem hér er vert að benda á er stanslaus ruglingur höfundar á „neikvæðum jónum“ og „rafeindum“. Jónir eru frumefni eða sameindir sem hafa ekki-núll hleðslu, t.d. er Fe2+ jákvætt hlaðin járn jón og OH- er neikvætt hlaðin hýdroxíð jón. Rafeindir eru neikvætt hlaðnar frumeindir, og ásamt róteindum (sem eru jákvætt hlaðnar) og nifteindum (sem bera ekki neina hleðslu) mynda þær frumefnin og sameindir þeirra. Mismunur á fjölda róteinda og rafeinda ræður hver hleðsla jónar er, þ.e. ef jón hefur n margar róteindir og n-2 margar rafeindir þá hefur jónin hleðsluna 2+.

 Við þennan asnaskap kemur upp ákveðinn brandari sem leggst upp á enskuna:
„The universe is made up of protons, electrons, neutrons and last but not least: morons."

Áhrif á byggingar

Hér segir: „Hús sem ekki hefur góða jarðbindingu er mjög líklegt til að missa lausar rafeindir vegna togkrafta jónahvolfsins eða vindnúnings.“ Málið er þó að ef rafeind er laus á annað borð þá getur hún farið hvað sem hún vill, þess vegna köllum við hana „lausa“.

Næst kemur höfundur með þessa frábæru setningar sem hér eru orðréttar: „Undirritaður hefur skoðað þetta nokkuð víða og séð merki um +hleðslur í veggjum sem mælast með stöðurafsviðsmælir. Hleðslan getur mælst allt að 100V/m við vegg.“ Förum aðeins í gegnum þessar staðhæfingar:


  •  Aftur getur höfundur ekki gert greinarmun á stærðum eðlisfræðinnar og mælir hleðslu veggjar en gefur upp stærð á rafsviði, hleðsla er mæld í Coulomb (C) en ekki V/m. Ef við gefum okkur að hann hafi verið að mæla styrk rafsviðs frá veggnum er sú stærð ómarktæk nema að með fylgji nákvæmar útlistanir á rúmfræði mælingar svo sem stærð veggjar, fjarlægð frá honum og hleðsluþéttleika veggjarins.
  • Stærðin á rafsviðinu (sem hann kallar hleðslu) sem hann mælir við vegginn er 100 V/m. Glöggir lesendur gætu hins vegar spurt sig: „Bíddu, er það ekki sama stærð og á rafsviðinu frá jónahvolfinu við yfirborð jarðar?“ og svarið við því er: „Jú, mikið rétt, þetta er sama stærð.“ Þykir mér því líklegast að um sé að ræða mælingu á sömu stærðinni, þ.e.a.s. veggurinn hefur ekki yfirborðshleðslu sem nær að hafa áhrif á aðrar rafsviðsmælingar.


Jarðtengingar

Hér er bara meira bull frá höfundi um ágæti jarðtengingar húsa, árangur er þó líklega svipaður því og að vökva húsið reglulega þar sem höfundi er einsett að koma jarðtengjum sínum í rakan jarðveg.

Rannsóknir

Hér segir: „Sögur af því hvernig jarðskaut hafa bætt heilsu manna og dýra eru fjölmargar.“ – Af hverju er það þá að höfundur hefur ekki fyrir því að nefna svo sem eina af þessum sögum? Næsta setning greinarinnar skýrir það kannski: „ Oftast er engin skýring á hvað gerist enda vita menn almennt harla lítið um hegðun rafmagns og áhrif þess á heilsufar.“ – Þ.a. hér er í raun höfundur að segja að hann sé með kraftaverkalækningar gegn vondum dulúðlegum öflum sem enginn kann skýringu á. Með þessu áframhaldi fer ég að búast við mynd af höfundi með galdrasprota við hliðina á Harry Potter í lok greinar.

Hér vísar höfundur svo í tvær rannsóknir, eina þar sem hann tilgreinir hvorki hver rannsakandi sé né samanburðarhópur en nefnir þó að rannsóknin hafi farið fram í heila 14 daga. Tvær vikur eru augljóslega ekki nóg til þess að áætla um ágæti aðferðar á heilsu fólks. Hin rannsóknin sem hann vísar í er þó nokkuð áhugaverðari en um hana segir hann: „Í einni rannsókn sem gerð var af nemendum Háskóla Reykjavíkur og var hluti af lokaverkefni þeirra í rafmagnsiðnfræði sýndi sig að jarðskaut hafði verulega mikil áhrif á líftíma pera en líka mjög mikil áhrif til bóta á heilsufar íbúa.“ Höfundur nafngreindi höfunda rannsóknarinnar ekki og tiltók ekki titil rannsóknar þ.a. ég þurfti að leggjast í smá leit á google til að sjá hvort ég fyndi ekki eitthvað í þá átt sem höfundur heldur fram. Eftir smá leit fann ég bara Diplóma verkefnið "Mælingar á jarðtengingum og orkugæðum“ frá Tækni og Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík eftir Vigfús Þór Árnason og Jóhannes Guðjónsson. Verkefnið má nálgast hér. Án þess að fara í smáatriðum gegnum alla greinina þeirra þá set ég hér inn örlítinn bút úr niðurstöðum rannsóknar þeirra:

"Markmið þessa verkefnis var að greina hvort bætt jarðbinding myndi skila sér í minni yfirtíðnum og rafmengun í viðkomandi kerfi. Þegar höfundar fóru af stað í þetta verkefni voru þeir báðir búnir að heyra mikið um það hvernig aukin og betri jarðbinding húsa myndu leiða til betra rafmagns eða minni óhreininda í rafmagninu. Þegar á hólminn var komið þá reyndust niðurstöður ekki eins afgerandi eins og höfundar höfðu búist við. Það að bæta við stafskautum hefur afskaplega litla þýðingu fyrir hús eins og við vorum að mæla í þessari skýrslu. Við höfðum gert okkur það í hugarlund að bætt jarðbinding myndi minnka yfirtíðnatruflanir í kerfinu en komumst að því að það hafði nákvæmlega engin áhrif.“ (Jóhannes Guðjónsson og Vigfús Þór Árnason, 2016). 

Enn fremur kemur hvergi fram í greininni áhrif þessa á heilsu fólks né nýtingu ljósapera. Þar með höfum við formlega staðfest að höfundur greinarinnar í bændablaðinu er að bera út ósannindi með skrifum sínum.

Að lokum vil ég benda á seinustu mynd greinarinnar en við hana heldur höfundur því fram að hann hafi mælt allt að 2A straum í blöndunartækjum en segir hann hættulausan með tilliti til spennu. Sannleikurinn er hins vegar sá að ef sú væri raunin þá myndum við reglulega heyra fréttir frá því að fólk væri að deyja í baði vegna raflosts. Straumur af þessari stærðargráðu myndi að öllum líkindum stórskaða manneskju. Ýmsar greinar á netinu gefa upp tölur á styrk straums sem væri hættulegur mannfólki og eru þær yfirleitt á bilinu 20-200mA, á vef Rafiðnaðarsambands Íslands segir t.d.: „Straumur af umfram 200 mA í 200 millisek. veldur alvarlegu innra tjóni.“

Höfundur „Húsasótt og jarðtengingar“ að mæla straum í blöndunartæki. 

Ég bendi þeim sem vilja kynna sér nánari útlistun á áhrifum rafsegulsviða á heilsu fólks að kynna sér vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO: What are electromagnetic fields?

Tryggvi Unnsteinsson er 3. árs nemi í Jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og keppti fyrir hönd Íslands á ólympíuleikunum í eðlisfræði árið 2014.

Wednesday, 19 April 2017

Biocrystal rugl

Vísindamaðurinn fékk ábendingu um eitthvað sem kallast Biocrystal. En hvað er Biocrystal og afhverju er það rugl?

Af heimasíðu Biocrystal má sjá þennan texta um vöruna:

Vörur frá BioCrystal innihalda 16 tegundir kristala og steinefna sem koma saman í sérstökum hlutföllum og magni til að bæta orku og almennt líkamsá5stand fólks. Góðmálmarnir, gull og silfur eru einnig í blöndunni til að endurhlaða orku kristalana.

Enn erum við engu nær hvað Biocrystal er. Eftir smá eftirgrennslu virðist sem að þessi Biocrystal blanda sé stráð á yfirdýnur eða sleeppads sem eiga svo að veita "hágæða svefn". Þessar kristal bættu yfirdýnur eru svo seldar á litlar 65 - 189 þúsund eftir stærð og gerð. Kannski vert að benda á, til samanburðar, að ódýrasta yfirdýnan hjá Rúmfata lagernum er á 2.195 kr.

Þessi yfirdýna kostar litlar 189 þúsund kr!  

En hvernig eiga þessi kristal og steinefna blanda að hjálpa við svefn? Jú þessi blanda er auðvitað "fyrsta snjalla kristals uppbyggingin í heiminum", en ekki hvað. En þarf ekki að tengja kristallanna við þráðlaust net til að virkja þá? (þetta er kaldhæðni, snallkristallar eru eitt mesta rugl sem sést hefur). 

Hérna eru nokkur atriði sem er að finna á heimasíðu og facebook síðu vörunnar og smá gagnrýni á þau: 

ActiPro heldur rúminu lausu við óæskilegar örverur.
Það er nú gott. En það væri gaman að fá að vita hvernig dýnan þekkir muninn á óæskilegum örverum og góðum. Aaaaaaa... Jú kristallanir eru auðvitða snjallir, það segir sig sjálft.

...virkni BioCrystal‘s og jákvæð áhrif þess á lífverur.
En hafa kristallanir þá ekki jákvæð áhrif á allar lífverur? td. E. coli/saurgeril. Kristallanir hafa samt varla áhrif á vondar lífverur eða hvað? Samkvæmt heimsíðunni eiga þeir að virka á menn, dýr og plöntur. Þá hljóta þeir að virka á bakteríur er það ekki? 

Heldur rúminu hreinu.
 Jú jú snjöllu kristallanir henda frá sér öllum óhreinindum og vondum bakteríum eða eitthvað.

Kemur jafnvægi á orku líkamans.
Þarna kom hún. Gull setningin sem allir sölumenn kjaftæðis koma með. Að koma á jafnvægi á orku/orkufæði/orkubrautir líkamans er klassíkt bull sem er alltaf notað í óhefðbundnum aðferðum.

Ýmsar prófanir á BioCrystal vörunum sem hafa verið framkvæmdar af Evróskum stofnunum.
Nú það væri nú gaman að lesa skýrslur af þessum prófunum og rannsóknum sem þessi stofnun framkvæmdi. En þessi stofnun er heitir Bion Institute og er "close to complementary (traditional or alternative) medicine". Þannig að þessi stofnun sem framkvæmdi þessar mælingar er nú varla marktæk. 

Þetta er dæmi um niðurstöður úr þessari "rannsókn" sem gerð var. Stóra spurningin er reyndar hvernig "Precentage of improvment" sé mælt.
Lokaorð.
Það var pínu erfitt að gagnrýna þetta af viti þar sem þessi vara er svo mikið kjaftæði og rugl. Einnig eru afar litlar upplýsingar um um vöruna sem er mjög algegnt í þessum svik og prett bransa. Þessar yfirdýnur, þó að þær séu mögulega með einhverjar kristala eða steinefna agnir í sér, eru ekkert nema fáranlega dýrar yfirdýnur. Reyndar segir hvergi hversu mikið er af þessari blöndu í dýnunum, mögulega er þetta í hómópatísku magni (sem sé ekkert). Kristallar hafa ekki áhrif á okkur og eru í mesta lagi fallegt skraut og ekki til þess fallnir að sofa á þeim. 

Kannski er best að enda þetta á hvernig þessi kristal blanda á að virka á lífverur? Á erlendri heimasíðu vörunnar er hægt að finna þennan texta hér að neðan sem er alveg týpískt samansafn af flottum orðum sem þíða í raun ekkert og eru í raun ekkert nema nautgripa saur (bullshitt): 

"Like all things around us, every cell of the human body has its own natural vibration. Vibrations are a natural feature which causes cells to perform one of its basic life functions - the metabolic function. With the proper metabolic functions, cells maintain their vital functions and enable smooth functioning of the organs. Any change or delay in the vibration leads to a disturbances in metabolism, and interferes with the normal functioning of cells, and thus the functioning of the organs.
Changing the rhythm of vibration can slow down or even prevent the normal functioning of cells, so it can disrupt the smooth flow of energy which can weaken the organism’s general condition, and thus creating the potential center for disease formation. Crystals provide faster and better metabolism with their ability to detect, monitor and influence the vibrations inside the cells of a body, regulating their proper frequency, thus removing, in a completely natural way all harmful substances from each cell, and the whole organism. This way the "purred" body allows faster energy flow, restoring and enhancing overall energy levels at the same time, achieving a higher fettle level." 

Heimildir: 
http://www.biocrystal.is/
http://www.biocrystal.eu/
https://www.facebook.com/Biocrystal.is/
https://www.on-course.eu/providers/bion-institute/

Thursday, 22 September 2016

Lífrænar ranghugmyndir

Algengar ranghugmyndir um lífrænan mat (og ræktun).


Í þessum pistli ætla ég ekki að fara í það hvað lífrænt er en þeir sem vilja fræðast meira um það geta lesið um það hérna. En í þesum pistli ætla ég að fara yfir tvær stærstu rangfærslurnar og ranghugmyndirnar sem heyrast með lífrænan mat.

Er lífrænt ræktaður matur ríkari af næringarefnum?

Það hafa verið gerðar þúsundir rannsókna sem bera saman næringarinnihaldi á lífrænt ræktuðum matvælum við hefðbundið ræktuð matvæli. Hérna á eftir fjalla ég um tvær stórar samanburðarrannsóknir sem ná yfir tugi ára af rannsóknum.

Sú fyrri kom út árið 2009 og í henni var verið að bera saman 137 rannsóknir sem gerðar voru á árunum 1958 til 2008.  Í þessari grein var bæði verið að bera saman ræktaða matvöru (korn og ávextir) og dýraræktun. Niðurstöðurnar voru þær að það er ekki munur á næringargildi lífrænt ræktaðra og hefðbundinna matvara.

On the basis of a systematic review of studies of satisfactory quality, there is no evidence of a difference in nutrient quality between organically and conventionally produced foodstuffs.

Seinni rannsóknin var gerð af Stanford háskólanum og kom út árið 2012. Þessi rannsókn er sú stærsta enn sem komið er á þessu sviði og fóru rannsakendurnir yfir um 50.000 rannsóknir til að meta gæði þeirra. Í lokin enduðu þeir með 237 vísindagreinar. Niðurstaða þessar samanburðarrannsóknar er sá að þegar á heildina sé litið er lífrænn matur ekki næringarríkari eða vítamínríkari heldur en hefðbundinn matur.

"Some believe that organic food is always healthier and more nutritious. We were a little surprised that we didn’t find that,” said Crystal Smith-Spangler, a Stanford Medicine instructor and one of the paper’s authors.

Í stuttu máli þá eru lífrænt ræktaðar matvörur ekki með meira af næringarefnum heldur en matur ræktaður á hefðbundinn máta.

En hvað með varnarefni (pesticide) eins og skordýra-, sveppa og illgresiseitur? Við skulum skoða það betur.


Er notað skordýra- og illgresiseitur í lífrænni matvælaframleiðslu? 

Lífræni iðnaðurinn mælir með að nota sem minnst af varnarefnum (en skildar ekki til þess) en bændur mega nota þau varnarefni sem eru flokkuð sem lífræn eins og þeir vilja. Einnig eru nokkir tugir ekki lífrænna eða synthetic varnarefna leyfð. Einnig er vert að benda á að mörg af þessum lífrænu varnarefnum eru líka notuð í hefðbundunni framleiðslu.

2012 rannsóknin sem minnst er á hérna að ofan sýndi að það er minna magn af varnarefnum í lífrænt ræktuðum matvælum miðað við hefðbundin matvæli. En það skal hafa það í huga að varnarefnin í hefðbundu matvælunum voru samt vel innan öryggisviðmiða. Þessi öryggisviðmið eru 1% af leyfilegum dagskammti.

The researchers found organic food had a 30 percent lower risk of pesticide residues but the residue levels on the conventional foods was well within safety limits.

Þó að það sé minna af eiturefnum í lífrænum matvælum þá skal hafa það í huga að sum af þessum lífrænu eiturefnum eru jafnvel eitraðri heldur en hefðbundna eitrið og því getur minna magn haft sömu eituráhrifin.

Til dæmis er rotenone lífrænt skordýraeitur, það er að finna í rótum og berki í vissum plöntu tegundum, og er það notað í miklum mæli í Bandaríkjunum og leyfilegt í Evrópu. Vandamálið er að rotenone er fimm sinnum hættulegra heldur en hefðbundna (synthetic) útgáfan chlorpyrifos. Einnig hefur verið sýnt framá að rotenone valdi Parkison einkennum í rottum. Rotenone er klárlega dæmi um að lífræna eitrið er ekkert betra.

Í rannsókn á varnarefnum í lífrænum mat í Bandaríkjunum sem var framkvæmd af USDA (US. Department of Agriculture) voru skoðuð 571 sýni og þau mæld fyrir 200 mismunandi varnarefnum. Niðurstöðurnar sýndu að í 43% af sýnunum mældust efni sem eru ekki leyfð í lífrænum iðnaði. Þessi háa tala er líklega vegna þess að það er alltof lélegt eftirlit með bændum í Bandaríkjunum eftir að lífræni stimpillinn hefur verið veittur. Þannig að þeir sem telja að þeir séu að sleppa við hefðbundin eiturefni með því að kaupa lífrænt eru mögulega ekki að því.


Smá pæling í lokin:

Í lífrænum matvælum er minna ef varnarefnum (skordýra-,illgresis og sveppaeitri) heldur en í hefðbundum matvælum. En minna magn segir ekki alla söguna með eituráhrifin. Þó að eitthvað sé náttúrulegt og lífrænt breytir því ekki að eitur verður alltaf eitur. Það er því bæði varnarefni í lífrænum og hefðbundunum matvælum en lang lang oftast vel undir öryggisviðmiðum.

Og ef það eru ekki heldur meiri næring í lífrænum matvælum afhverju eru þau svona miklu dýrari? Svarið er mögulega vegna þess að það er töff að borða lífrænt og fólk er tilbúið að borga hvað sem er til að vera töff.

Bætt við 14. okt 2016:
Hérna er gott myndband frá AsapScience um lífræntræktaðan mat:

Heimildir og ýtarefni: 

Thursday, 26 May 2016

Útþynnt Hómópatía

Hérna verður að fjallað um hvað hómópatía og hómópatíulyf eru og svarað spurningunni: Afhverju virka hómópatíulyf ekki?

Hvaðan kemur hómópatía og útá hvað gengur hún?


Hómópatía (homeopathy) eða smáskammtalækningar var fundin upp á 19. öld af Samuel Christian Friefrich Hahnemann (1755-1843).

Hómópatía byggist á tveim megin lögmálum:
  • Líkingalögmálinu (law of similars) eða líkur læknar líkan. Sem þíðir að ef eitthvað efni veldur einkennum í heilbrigðum einstaklingi þá á það efni að getað læknað sjúkdóm með sömu einkenni. 
  • Örsmæðarlögmálinu (the law of Infinitesimals) sem fjallar um að hafa lyfin útþynnt til að draga úr neikvæðum áhrifum lyfjanna og fá bara fram góðu áhrifin. 
Hérna er svo hægt að lesa frekar um sögu hómópatíu: Smáskammtalækningar (hómópatía).

Hvernig eru hómópatalyf búin til?

Framleiðsla á hómópatalyfjum gengur útá að þynna svo kallaða móður tiktúru. Móðir tiktúra er stokklausn og er oft plöntu útdráttarlausn en getur verið allt frá kopar til arsenic lausn. Eftir þynninguna, í annað hvort vatn eða vínanda, er hrist á ákveðinn hátt sem á að auka virkni lyfsins (succussion) og virkni aukningin er kölluð efling (dynamization). Þessi þynninga og hristings aðferð er svo endurtekin aftur og aftur þangað til að loka þynningunni er náð en þetta geta verið allt frá tugi til hundruði þynningarstiga. Hahnemann hélt því fram að hristingurinn leysti úr læðingi andlega krafta úr virku efnunum. Þetta lýsand textabrot er úr bókinni Homeopathy in prespective og sýnir ágætlega hugmyndafræði Hahnemann: 

Dynamization was for Hahnemann a process of releasing an energy that he regarded as essentially immaterial and spiritual. As time went on he became more and more impressed with the power of the technique he had discovered and he issued dire warnings about the perils of dynamizing medicines too much. This might have serious or even fatal consequences, and he advised homeopaths not to carry medicines about in their waistcoat pockets lest they inadvertently make them too powerful. Eventually he even claimed that there was no need for patients to swallow the medicines at all; it was enough if they merely smelt them.

Samkvæmt kenningum hómópatíunnar á því hristingurinn eða eflingin að valda því að lausnin verði í raun sterkari eða kröftugri þrátt fyrir þynninguna. Eða því meiri þynning og meiri hristingur því sterkari verða hómópalyfið (sem er afar undarlegt). Áhrif uppruna efnisins úr móður tiktúrunni á því að haldast þrátt fyrir fjölmargar þynningar.

Þynningarnar eru fjölmargar fram að loka hómópatíulyfinu. Til að tákna fjölda þynninga eða styrkleika hómópatíulyfjanna (því meira þynnt því sterkari lausn) notast hómópatar við 1X og 1C sem tákna 1/10 og 1/100 þynningu. Algeng þynning á hómópatalyfi er 30C. 30C er þá 1 á móti 1060 eða 1 á móti 1.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000 þynning. Til að setja þetta í samhengi þá er 30C þynning eins að setja einn dropa af lyfi í ílát sem væri 30 milljarð sinnum stærra heldur en jörðin. Sem sé það eru engar líkur á að finna virka efnið í loka þynningunni á hómópatíulyfinu. Það merkilega er að það eru jafnvel til 400C lausnir sem eru 1 á móti 10−400 þynntar. Sem er á stærðargráðu og líkurnar á að finna eitt ákveðið atóm í öllu sólkerfinu.

Richard Dawkins fer yfir hve ótrúlega mikið hómópatíulyf eru þynnt í myndbandinu hérna að neðan:

En hvernig getur lausnin orðið sterkari sem lyf eftir því sem hún er meira þynnt? Jú hómópatar trúa því líka að vatn hafi minni. Sem sé vatnið muni eftir efninu sem var í móður tiktúrinni í gegnum allar þynningarnar. En afhverju vatnið man ekki eftir öllu því það hefur komist í snertingu við fram að hómópatalyfi?

Hómópatíu lyf eru annað hvort í vökvaformi eða í töfluformi. Ef þau eru í vökvaformi eru þau annað hvort í vatni eða vínanda (ethanól) og í töfluformi þá eru þetta sykurtöflur sem hafa verið úðaðar með útþynntri hómópatískri lausn (myndband að neðan sýnir hvernig hómópatíulyf eru framleidd).

Myndband frá hómópatíu framleiðandanum Similasan:


Seinasta þynningin er oft gerð í alkóhóli en hómópatar segja að það sé gert til að geyma kraftinn lengur í lausinni. En liklega er það til að fá einhver áhrif af því að taka inn lausnina og þá áhrifin vegna áfengisins.

Bara nokkur dæmi um hvað hómópatía er sögð hafa áhrif á og meira hérna:
  • Heilsuvandamál barna s.s. magakrampar, svefnvandamál, tanntaka, endurteknar sýkingar, eyrnabólgur, astmi, exem, vörtur, undirmiga, hegðunarvandamál. 
  • Heilsuvandamál kvenna s.s. fyrirtíðaspenna, tíðavandamál, breytingaskeið, útferð, meðgöngukvillar, ófrjósemi, fæðingarþunglyndi. 
  • Slys og afleiðingar þeirra s.s. sárum, blæðingum, beinbrotum, mari, tognun höfuðhöggi, brunasárum. 
  • Algeng heilsuvandamál s.s. influensu, ofnæmi, mígreni, meltingarvandamál, gigt, síþreytu. 
  • Andleg og tilfinningaleg vandamál s.s. þunglyndi, taugaspennu, kvíða, ótta, sorg, reiði, áföll. 
  • Auk stuðningsmeðferðar eftir skurðaðgerðir, hjartaáföll, lyfja- og geislameðferð krabbameinssjúklinga.


En hvað segja vísindin um virkni hómópatalyfja?

Árið 2002 var gerð yfirlitsgrein um yfirlitsgreinar (systematic review of systematic reviews) sem fjalla um hómópatíu og niðurstaðan var: 

In particular, there was no condition which responds convincingly better to homeopathic treatment than to placebo or other control interventions. Similarly, there was no homeopathic remedy that was demonstrated to yield clinical effects that are convincingly different from placebo. It is concluded that the best clinical evidence for homeopathy available to date does not warrant positive recommendations for its use in clinical practice.

Eða með öðrum orðum þá virkar hómópatía ekki betur en lyfleysa (placebo) eða ekkert betur en vatn eða sykurpilla.

Á árunum 2009-2010 lét neðri deild breska þingsins (House of Commons) gera úttekt á því hvort að breska almanna-sjúkratryggingarkerfið eða National Health Service (NHS) ætti að halda áfram að greiða fyrir þjónustu hómópata. Var niðurstaðan eftirfarandi:
We conclude that placebos should not be routinely prescribed on the NHS. The funding of homeopathic hospitals—hospitals that specialise in the administration of placebos—should not continue, and NHS doctors should not refer patients to homeopaths.

Niðurstaðan var í stuttmáli að NHS ætti að hætta að styrkja hómópatískar meðferðir þar sem þær væru ekkert annað en lyfleysa. Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni og einnig er hægt að lesa frekar um hana í grein á Upplýst síðunni.

Ástralska heilbrigðisráðaneytið gerði risa úttekt á hómópatíu árið 2015. Í þessari úttekt var farið yfir 1800 rannsóknir sem búið er að gera um hómepatíu en aðeins 225 af þeim voru nógu vel gerðar til að vera notaðar. Niðurstöðurnar voru þær í stuttu máli að hómópatía gagnast ekki gegn neinum sjúkdómum eða örðum heilsu tegndum kvillum.

Þetta hafði NHMRC (National Health and Medical Research Council) að segja um hómópatíu eftir þessa úttekt:

Based on the assessment of the evidence of effectiveness of homeopathy, NHMRC concludes that there are no health conditions for which there is reliable evidence that homeopathy is effective.

Homeopathy should not be used to treat health conditions that are chronic, serious, or could become serious. People who choose homeopathy may put their health at risk if they reject or delay treatments for which there is good evidence for safety and effectiveness.


En eru hómópatalyf hættulaus? 

Nei hómópatía er als ekki hættulaus... Að eitthvað sé til sem heitir hómópatísk bóluefni er nánast sturlað og stórhættulegt!

Lokaorða og niðurstaða:

Afhverju virka hómópatalyf ekki?
Hómópatísk lyf virka ekki því að það er ekkert virkt efni í hómópatalyfjum og allar rannsóknir á hómópatalyfjum hafa sýnt framá að þau virka ekkert betur en lyfleysa. Hómópatísk lyf hafa alltaf verið og eru ekkert annað en sykur, vatn eða ethanól. Hómópatía og hómópatísklyf eru byggð á kjaftæði og eru því kjaftæði. 

Þó að hómópatísklyf séu raun skaðlaus, þar sem þau eru bara vatn eða sykurtöflur, þá eru það í raun og veru hómópatarnir sjálfir sem geta verið hættulegastir. Þeir útdeila ganglausum vökvum og pillum með ýmsum formerkjum, bæði í lækninga og forvarnar skyni og sjúklingar ýmist fara of seint til alvöru læknis eða jafnvel í verstu tilfellum hætta lyfjameðferðum.

Spuningin ætti ekki að vera hvort að hómópatía virki heldur afhverju hún er ennþá til? Og stóra spurningin ætti kannski enn frekar að vera af hverju sum apótek á Íslandi eru selja hómópatalyf?

Heimildir og ýtarefni:

Homeopathy
Smáskammtalækningar (hómópatía) - Vantrú
The homeopathic treatment of bipolar is unethical and dangerous.
Homeopathy 'quackery´should be cut from NHS, campaigners urge after study finds it ineffective.
Homeopathy: How 200-year-old junk science created junk medicine and lasted until this day.
Homeopathy is bunk, study says.
Homeopathy not effective for treating any condition, Australian report finds.
1800 studies later, scientists conclude Homeopathy doesn´t work.
Homeopathic reatments: Do they help or harm?
A kind of magic?
Skýrsla breskra yfirvalda um hómópatíu - Upplýst
Homeowatch
Money for nothing: Why homeopathy is still pseudoscientific nonsense that does not work.
Homeopathic Vaccines.
Homeopathy review frá Áströlsku heilbrigðisráðaneitinu.

Organon fagfélag hómópata
Hómópatía – vitræn vísindi

Tuesday, 26 April 2016

Waveex scam

Vísindamaðurinn fékk ábendingu um svindl sem kallast Waveex. Af heimasíðu söluaðila á Íslandi má sjá að það er verið að selja þessa límmiða á 5000 kr með þeim formerkjum að þeir eigi að draga úr einhverjum vondum rafsegulbylgjum. Allar fullyrðingar um virkni þessa límmiða er ekkert nema sölutrikk.


Á heimasíðunni kemur þetta fram um "tækið":

Þráðlaus tæki senda frá sér rafsegulbylgjur sem hafa áhrif á nærumhveri þeirra. Bylgjurnar eru óstöðugar en það er sá óstöðuleiki sem veldur líkama okkar skaðlegum áhrifum. Waveex stillir hins vegar bylgjurnar og gerir þær þolanlegar.

Waveex er límmiði með örflögu sem aðeins þarf að líma á viðeigandi tæki. Einfalt og áhrifaríkt!


Svo kallaðar sannanir fyrir virkni: 
Á heimasíðu söluaðila á Íslandi má sjá þessa fullyrðingu:

Rannsóknir sem sýna fram á áhrif Waveex flögunnar eru vottaðar af Bureau Veritas, leiðandi eftirlitsaðila á heimsvísu er viðkemur prófunum, eftirliti og vottun.

Vísindamaðurinn las þessa "votun" frá Bureau Veritas. Hérna fyrir neðan má sjá að hann Josef Resch frá Bureau Veritas var aðeins viðstaddur til að staðfersta að mælingin hefði verið framkvæmd. Hann fór ekki yfir niðurstöðurnar né staðfesti að loka útkoman væri rétt.


Þegar þessar mælingar eru betur skoðaðar og reiknað út úr niðurstöðum, þá fást eftirfarandi tölur sem eru gefnar upp í micro-Tesla:

Blank: 42,03 +/- 0,31 mT
Sími án Waveex: 42,21 +/- 0,43 mT
Sími með Waveex: 42,14 +/- 0,43 mT

Margir sem líta snökkt yfir þessar tölur og gildi munu halda að Waveex virki, að sími með Waveex gefi frá sér minna af rafsegulbylgjum eða 0,07 mT. En ef betur er að gáð þá er staðalfrávikið (+/- 0.43) svo stórt að í raun og veru er enginn marktækur munur. Einnig er vert að minnast á það að mælirinn er með +/- 0,01 í mælióvissu. Þannig að ef farið er yfir þeirra eigin niðurstöður og smá tölfræði beitt þá kemur í ljós að það er enginn marktækur munur á með eða án þessara límmiða.

En hvernig voru þessar mælingar gerðar? 
Þessar tilraunir virðast hafa verið framkvæmdar heima hjá einhverjum. Myndin (Fig2) hérna að neðan sýnir aðstæðurnar. Myndin er fengin úr skýrslu sem er að finna á heimasíðu framleiðanda. Þessi tilraun getur seint talist sem einhver vísindaleg rannsókn þar sem aðstæðurnar bjóða bara einfaldlega ekki uppá það og það var bara gerð ein mæling fyrir síma og ein mæling fyrir þráðlausan netbeininn.


Myndin hérna að neðan sýnir mæli aðstæðurnar þegar límmiðinn var prófaður á þráðlausum netbeini (sem sést ofan á rafmagnstöflu efst til hægri). En hvar límdu þeir límmiðann á netbeininn? Jú auðvitað á hleðslutæki en ekki hvað. Það vita allir að þannig stopparðu vondu rafsegulbylgjunar frá netbeinum (lesist með mikilli kaldhæðni).


Einnig getur verið gott að óháður aðili geri tilraunina sem á að sanna virkni vörunnar en ekki sölustjórinn (Wolfgang Vogl). Undirskriftin til vinstri er úr skýrslunni sem fjallar um tilraunina og myndin til hægri er af heimasíðu framleiðanda. Eins og sérst þá er rannsóknarmaðurinn og sölustjórinn einn og sami maðurinn.
Á heimasíðu framleiðanda má einnig sjá fleiri "sannanir" fyrir virkni Waveex límiðans. Þar sem ýmsu er haldið fram án þess hafa einhverja birta vísindalega rannsók til að bakka það upp. 
Því er haldið fram að Waveex geti einhvern vegin verndað blóðið í manni og þá er verið að gefa í skyn að rafsegulbylgjur breyti því. Svona myndir sanna ekkert þar sem rannsakendurnir eru að leita eftir vissri niðurstöðu og velja bara þær myndir sem passar við hana.


 Einnig er virknin "sönnuð" með ljótum ískristöllum án Waveex og með flottum með Waveex. Það er ekkert mál að velja bara einfaldlega kristalla sem henta að hverju sinni í svona tilraun.


Niðurstaða:  Wavexx er ekkert nema scam og svindl! Öllum er ráðlagt að kaupa ekki þessa vöru þar sem hún er gagnlaus og ef einhver hefur gert það þá er honum ráðlagt að heimta endurgreiðslu. 

Það er best að enda þetta á orðum Fedral trade commission um Cell phone Radiation Scams:

While health studies about any relationship between the emissions from cell phones and health problems are ongoing, recent reports from the World Health Organization will no doubt convince scam artists that there's a fast buck to be made. Scam artists follow the headlines to promote products that play off the news – and prey on concerned people.

Bætt við 27. apríl 2016:
Hérna hefur verið tekið saman gögn og rannsóknir með sannanir fyrir því að rafsegulbylgurnar frá rafmagnstækjum eru hættulausar: http://www.emfandhealth.com/

Thursday, 21 April 2016

Basískt kjaftæði

Það er varla þverfóta fyrir sjálfskipuðum næringarþerapistum og öðrum sérfræðingum sem segja að allir verði að fara að laga sýrustigið og fara að borða meira basískt til að laga súrleikann. En útá hvað gengur þessi kenning um basískt mataræði? Og hvaðan kemur þessi kenning? Og er eitthvað vit í þessu?

Hvað er basískt mataræði?
Þessi tegund af mataræði gengur undir ýmsum nöfnum: Alkaline diet, basískt mataræði, pH miracle living eða pH lífstíll. Basískt matarræði gengur útá að pH-ið eða sýrustigið í blóðinu sé of lágt og það sé eitthvað sem þurfi að laga. Það eru tveir skólar hvernig súrleiki líkamans er mældur, annars vegar að skoða blóðið í smásjá eða að mæla pH-ið á þvagi.

Sú aðferð að mæla súrleika blóðs með smásjá er komið frá "Dr." Robert O. Young. En það er tekið blóðsýni og það skoðað undir smásjá og metið fyrir og eftir að einstaklingurinn/sjúklingurinn er búinn að vera á basísku mataræði. Hér og hér er hægt að sjá myndbönd hvernig þessi blóðskoðun fer fram. Þeir sem gera þessi test kalla sig blood microscopist eða blóðgreina og það er allavega einn svoleiðs starfandi á Íslandi sem lærði hjá "Dr." Young. Vandamálið við þessa aðferð að það hún stenst enga skoðun og virðist hún vera bara tilbúningur frá upphafi til enda frá "Dr." Young. Nánar verður fjallað um Young hérna fyrir neðan.

Hin aðferðin er að mæla sýrustig þvags með pH -strimlum. Þeir sem aðhyllast þessari aðferð segja það að sýrustigs þvagsins segi til um sýrustigs blóðsins eða líkamans í heild sinni. Sem er á allan hátt rangt. Sýrustigs þvags segir ekkert til um sýrustigs blóðs. Sýrustigs þvags breytis dag frá degi og er nátengt fæðuni sem þú borðar. Þvagrásar kerfið og blóðið er aðskilið kerfi og ef svo er ekki (ef það er blóð í þvaginu) þá skaltu leita læknis strax! Hægt er að lesa um af hverju þetta stenst engan vegin hérna.


Til að laga svo þessar súru aðstæður (það virðast reyndar flestir vera súrir) er mælt með að borða basískan mat. Þeir sem mæla með basísku mataræði flokka fæðutegundir niður eftir hvort þær séu basískar eða súrar. Hvernig hvaða matur er flokkaður í súrt eða basíkst er ekki alveg 100% á hreinu og getur það verið smá breytilegt sjá td. hér eða hér. En í grunninn þá eru súrar fæðutegundir: sumir ávextir, korn, mjólkurafurðir, kjöt, fiskur, áfegni, kaffi og fleira. Basíkar fæðutegundir eru: grænmeti, eplaedik (basísk sýra?), AB-mjólk og sumir ávextir og af einhverri sérstakri ástæðu eru sítrónur basískar (?!?).

Hvað á að gerast ef líkaminn er súr?
Þetta er að finna á síðu Heilsa.is um súrt líkamsástand:
Of súr líkami er alvarlegt mál. Afleiðingarnar eru m.a.: Sveppasýking, kvef, inflúensa, bólgnir eitlar, nætursviti og svefnleysi, bólgur, s.s: vöðvabólga og þursabit, liðagigt, mígreni og margs konar aðrir verkir, bjúgur, fituhnúðar, mjög lágur blóðþrýstingur, hægðatregða og niðurgangur til skiptis. Einfaldlega of hátt sýrustig dregur úr virkni ónæmiskerfisins á allan hátt þeir sem hafa pH gildi líkamans í lagi kenna sér sjaldnast meins. Candida sveppurinn, vírusar, bakteríur og önnur meindýr þrífast til dæmis ekki í líkama með rétt sýrustig.

Samkvæmt þessu má nánast leiða alla sjúkdóma heimsins til þess að líkaminn sé of súr. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að krabbamein séu vegna of lágs sýrustigs. Það merkilega við þetta að það er aldrei talað um hvað gerist ef líkaminn yrði of basískur.


Allur matur sem þú borðar verður súr vegna magasýranna og allt (og þá meina ég allt, bæði basískt og súrt fæði) fer niður í pH-ið 1.5 til 3.5. Eftir að maginn hefur brotið niður matinn þá fer hann áfram niður í garninar þar sem brisið hlutleysir matinn og að lokum verður maturinn örlítið basískur. Þannig að það skiptir engu máli hvað þú borðar líkaminn gerir matinn fyrst súrann og svo basískann og svo kúkarðu því sem þú nýtir ekki.

Annað vandamál við þessi fræði er að það er ekki hægt að breyta pH-inu í blóðinu með matarræði. Reyndar þarf bara ekkert að breyta sýrustigi blóðsins, það er alltaf á milli pH 7.35-7.45, og það er stórhættulegt að reyna að breyta því hið minnsta. Ef pH-ið breytist bara örlítið þá líður yfir þig og ef það fer niður fyrir pH 7 eða uppfyrir 7.8 þá deyrðu. Þannig að allt tal um laga pH-ið með basísku mataræði er kjaftæði.

Hvaðan koma þessi fræði?
Þetta er ekki byggt á aldargamalli hefð eða kínverskum fræðum.Heldur virðist það koma fram í kringum 1990-1997.  En náði svo flugi eftir að bókin The pH Miracle kom út árið 2002 eftir "Dr." Young og konuna hans. En "Dr." Young segir þetta um sjálfan sig á heimasíðunni sinni:

Over the past two and a half decades, Robert O. Young has been widely recognized as one of the top research scientists in the world. Throughout his career, his research has been focused at the cellular level. Having a specialty in cellular nutrition, Dr. Young has devoted his life to researching the true causes of "disease," subsequently developing "The New Biology™" to help people balance their life.

In 1994, Dr. Young discovered the biological transformation of red blood cells into bacteria and bacteria to red blood cells. He has since documented several such transformations.

Young segist einnig geta læknað krabbamein með því að laga sýrustigið í blóðinu. Það þarf ekki að fara yfir það frekar því það er kjaftæði.

Árið 1994 komst Young að þvi að rauðarblóðfumur geti breyst yfir í bakteríur og öfugt. Ef Young hefði fundið eitthvað í líkindu við það sem hann segist hafa fundið þá væri hann líklega kominn með nóbelsverðlaun nú þegar. En það er bara ekki hægt (blóðfrumur breytast ekki í bakteríur) og svona staðhæfing sýnir bullið í kringum þennan mann.

Einnig segist hann vera með gráðu frá Clayton College of Natural Health (CCNH). En síðan quackwatch hefur þetta að segja um háskólann og "Dr."  titilinn:

I [Stephen Barrett] believe that CCNH did have one potentially valuable aspect. Its credentials are a reliable sign of someone not to consult for advice.

Clayton College of Natural Health was a nonaccredited correspondence school that advocated unscientific and quack methods. Its requirements for graduation were minuscule compared to those for accredited colleges and universities that train health professionals. It closed in 2010 after Alabama began requiring accreditation for license renewal. Moreover, no correspondence school can prepare students to give competent health advice to clients because that requires years of clinical experience under expert supervision. Young's connections with Clayton and Bradford reflect extremely poor judgment.

Young hefur aldrei verið með læknaleyfi þó að hann kalli sig Doctor og gangi um í hvítum slopp. Young hefur verið kærður þrisvar sinnum. Fyrst 1996 fyrir að starfa án læknaleyfis, næst 2001 fyrir að segja konu með krabbamein að hætta lyfjameðferð og fara á "Super Greens" efnið hans í staðinn, og núna síðast var hann  handtekinn og ákærður árið 2014 fyrir að starfa án læknaleyfis og síðan dæmdur árið 2016. Young situr í fangelsi í dag og býður enn fleiri ákæranna.

Þetta kom meðal annars fram í réttarhöldunum yfir honum 2014-2016:
Darvas [Deputy District Attorney] argued that Young was diagnosing and treating people at his Valley Center ranch. She also accused him of personally administering IV’s of sodium bicarbonate — baking soda — to at least six terminally ill cancer patients.

Við réttarhöldin hafði saksóknarinn þetta um gráðuna hans Youngs:
Not a medical doctor, Young received doctorate degrees from Clayton College of Natural Health, a non-accredited and now- defunct Alabama correspondence school. He went from a bachelors degree to masters to doctorate in eight months.

Niðurstaða höfundar:
Það er ekki hægt að breyta sýrustigi líkamans né blóðsins með mataræði. Maðurinn (Young) sem gerði þetta frægt situr núna í fangelsi og þær kenningar sem hann heldur fram eru kjaftæði. Þeir sem selja basískar matvörur og halda því fram að þær hafi áhrif á sýrustigs blóðsins eru í versta falli lygarar og í besta falli kjánar. pH/basíkst/Alkalíst fæði er kjaftæði frá A til Ö!

Góð settning til að hafa í huga í lokin:
Taking calcium supplements or drinking alkaline water will not change the pH of your blood. If you hear someone say that your body is too acidic and you should use their product to make it more alkaline, you would be wise not to believe anything else the person tells you.


Heimildir og ýtarefni: 
Acid/alkaline therory of disease is nonsense - quackwatch
Alkaline diet -  skeptic´s dictionary
The "pH Miracle diet" naturopath is guilty,... - Naturopathicdiaries
A Critical look at "Dr." Robert Young´s theories and credentials - Quackwatch
pH miracle living "Dr." Robert O. Young is finally arrested,... - Science-Based Medicine
Your urine is not a window to your body: pH balancing, A failed Hypothesis - Science-Based pharmacy

Sýrustig fæðu og líkama - Upplýst
Þjóðsaga 3 - Súrt mataræði veldur krabbameini - Upplýst
Míkróskópistar og smásjárskoðun á ferskum blóðdropa - Upplýst
Innerlight supergreens - Krafraverkalyf? - Vantrú
Heilsubrunnur - Svanur Sigurbjörnsson

pH lífsstíll
pH miracle living
Sunday, 10 April 2016

Fjölvítamín: Þörf eða óþörfSeljendur fjövítamína oftar en ekki auglýsa með þeim formerkjum að þau séu nauðsynleg og komi í veg fyrir nánast allt milli himins og jarðar td. kvef, krabbamein og aðra sjúkdóma:

Fjöldi rannsókna benda til þess að inntaka C-vítamíns dragi úr hættu á sumum tegundum krabbameins, hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi,..

Þessi vítamín [andoxandi vítamín] eru talin sporna gegn öldrun vegna þess að þau vernda frumurnar gegn eyðileggjandi áhrifum sindurefna

Ótal rannsóknir hafa verið gerðar með E-vítamíni og hafa þær beinst að verndandi þætti E-vítamíns gegn ýmsum tegundum krabbameins,


Það eru miklir peningar í spilinu og er bætiefnamarkaðurinn gríðarlega stór td. árið 2010 eyddu Bandaríkjamenn um 28 milljarð dollara eða 3.400 milljörðum íslenska króna í bætiefni og hefur markaðurinn bara stækkað síðan þá.

En spurningin er hvort að það sé þörf á öllum þessum vítamínum sem markaðurinn vill að við tökum inn og standast þessar fullyrðingar um kosti fjölvítamína skoðun? Við skulum líta á það aðeins nánar.


Innantómar fullyrðingar. 
Það hafa verið gerðar gríðarlega stórar samanburðar rannsóknir til að meta hvort að inntaka á fjölvítamínum og steinefnum auki lífaldur, hafi áhrif á hjarta-og æðasjúkdóma og krabbamein og niðurstöðurnar sýna engan mun á móti lyfleysu (að taka ekki inn auka vítamín).

Langflestir hafa séð settningar á þessa leið um vítamín C:

Flestum eru kunnar niðurstöður rannsókna á jákvæðum áhrifum C-vítamíns á kvef, bæði fyrirbyggjandi og sem hjálp við að ná sér eftir sýkingu

En sannleikurinn er sá að rannsóknir á eftir rannsóknum sýnt fram á að vítamín C geri ekki neitt í að koma fyrir kvef og að það sé ekkert nema óskhyggja.


Er hægt að taka of mikið af vítamínum?
Það skal varast að taka inn meira af vítamínum og steinefnum en ráðlagður dagskammtur segir til um. Sem dæmi um vítamín sem hættulegt er að taka of mikið inn af er Vítamín A en ofneysla á því getur valdið beinhrörnun.

Það er mikið í tísku þessa dagana að taka inn efni sem eru  andoxunarefni (antioxidant) og eiga þau að vera allra meina bót og meira að segja hægja á öldrun. En andoxunar vítamín eru td. vítamín A, C og E og beta carotene. Það eru langflestir sammála um að innbyrða ávexti eða grænmeti sem innihalda andoxunarefni er holt og gott fyrir þig. En aftur á móti eru litlar sem engar heimildir fyrir því að inntaka á andoxunar vítamínum í töfluformi geri eitthvað. Aftur á móti þá hafa rannsóknir sýnt að of mikið að andoxunarefnum eykur jafnvel líkurnar á krabbameini í einhverju tilfellum.
Ein rannsókn sýndi framá að Vítamín E í miklu magni virðist í raun auka líkurnar á að fólk deyji fyrr en ella. Þannig að það er klárlega ekki málið að úða í sig andoxunarefnum í von um að fá sléttari húð.


Eru einhver vítamín eða steinefni sem virka?
Ekki eru öll vítamín og steinefni gagnlaus sem fæðubótarefni og ef læknir segir þér að taka inn vítamín eða steinefni þá áttu að hlusta á hann. Það er mælt með að taka inn folic sýru á meðgöngu þar sem það er talið koma í veg fyrir meðfæddar heila og mænuskemmdir í fóstrum. Vítamín B12 getur snúið við blóðleysiVítamín K sprautur fyrir nýfædd börn kemur í veg fyrir alvarlegar blæðingar þar sem vítamín K er mikilvægt fyrir storknum blóðs. Vítamín D er mælt með fyrir börn á brjósti til að koma í veg fyrir skort. Einnig er okkur á norðlægðum slóðum ráðlagt að taka inn auka vítamín D þar sem við sjáum einfaldlega ekki nóg til sólar. Vítamín D er reyndar eitt af fáum vítamínum sem er virkilega einhver virkni af að taka inn sem fæðubótaefni.


Niðurstaða. 
Það er engin að segja að við þurfum ekki vítamín enda eru þau lífsnauðsynleg. En staðreyndin er sú að við sem búum í hinu vestræna heimi fáum nánast öll okkar vítamín og steinefni úr fæðunni. Eina vítamínið sem við ættum að taka inn að staðaldri er vítamín D. Þær fullyrðingar að fjölvítamín minnki líkurnar á krabbameini standast ekki skoðum. Í besta falli þá eru fjölvítamín dýr lyfleysa en í versta falli geta þau verið skaðleg. En öllum þessum peningum sem er verið að eyða í fjölvítamín er bara kárlega betur varið í betri og hollari mat!

Hérna er svo gott skýringar myndband frá NutritionFact:


Viðbót: 
Hérna er langur og ýtarlegur samvinnuþáttur frá Frontline, The New York Times og Canadian Broadcasting Corporation um hættur vítamína og fæðubótaefna sem er mjög lítið eftirlit með: